Kynningar á Tourette

Kynningar  á Tourette og tengdum vandkvæðum fyrir starfsfólk skóla og aðra hópa

Tourette-samtökin á Íslandi vekja athygli stjórnenda, námsráðgjafa, kennara og fagfólks í grunn­skólum landsins á kynningu á Tourette sem skólar geta pantað sem og aðrir aðilar.

Fyrirlesari er Íris Árnadóttir sem er sálfræðingur að mennt, kennari og móðir barna með Tourette. Hægt er að hringja í Írisi og panta kynningu í síma 695-0018 eða með tölvupósti á netfangið irisarnad@gmail.com. Kynningin tekur um eina klukkustund.

Tourette-samtökin létu þýða bandarískt fræðsluefni um Tourette-heilkennið, sem kynning þessi byggir á. Það er sérstaklega er ætlað til að fræða kennara og annað starfsfólk skóla með það að mark­miði að auðvelda þeim starfið og gera það árangursríkara. Fræðsluefnið er að miklu leyti á tölvutæku formi. Kynningin hefur verið haldin í allnokkrum skólum undanfarin ár við góðar undirtektir. Þeir skólar eða vinnustaðir sem panta kynninguna fá einnig tölvugeisladisk (fræðsluefni um Tourette á ensku sem má fjölfalda) auk fleira kynningarefnis.

Fjallað er á skýran hátt um einkenni Tourette og fylgifiska, ADHD, OCD, og einnig námsörðugleika. Útskýrt er hvernig þessir kvillar geta haft áhrif á hegðun og árangur barna í skólanum. Þá er lýst aðferðum til að auðvelda þessum börnum námið og minnka líkur á hegðunartruflunum.

Athygli er vakin á því að þær aðferðir við kennslu barna með Tourette, sem kynningin lýsir, nýtast einnig vel við kennslu barna með athyglisbrest með ofvirkni, áráttu-þráhyggjuröskun og einkenni á einhverfu­rófi. Kjörið er fyrir þá skóla sem fá til sín þessa kynningu að bjóða á hana þeim foreldrum barna í skólanum, sem glíma við ofangreindar raskanir og tengd vandkvæði og eiga erfitt í skóla.