Lög samtakanna

LÖG TOURETTE-SAMTAKANNA Á ÍSLANDI

1. grein

Nafn samtakanna er Tourette-samtökin á Íslandi. Samtökin eru landssamtök. Heimili þeirra og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein

Markmið samtakanna er að standa vörð um hagsmuni TS-einstaklinga og fjölskyldna þeirra.

Í því felst meðal annars:

 1. Stuðla að upplýsingamiðlun til TS-einstaklinga og fjölskyldna þeirra.
 2. Stuðla að þeirri fræðslustarfsemi er leitt getur til betri aðstöðu TS-einstaklinga og fjölskyldna þeirra í þjóðfélaginu.
 3. Gera almennt það sem nauðsynlegt er, til að öðlast viðurkenningu á sértækri stöðu TS-einstaklinga og fjölskyldna þeirra.
 4. Sjá um og ávaxta fjármuni og eignir er samtökunum kann að áskotnast til að ná settu marki og nota hugsanlegar tekjur af þeim í samræmi við tilgang samtakanna.

3. grein

Fullgildir félagar geta orðið allir TS-einstaklingar og aðstandendur þeirra.Styrktarfélagar geta þeir orðið sem greiða tilskilið félagsgjald. Styrktarfélagar hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum samtakanna, en ekki atkvæðisrétt.

4. grein

Æðsta vald er í höndum aðalfundar. Hann skal halda að jafnaði í marsmánuði ár hvert. Boðað skal til aðalfundar með a.m.k. fimmtán daga fyrirvara með sannarlegum hætti, til að mynda með tölvupósti til félagsmanna eða sambærilegum rafrænum hætti. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað. Reikningar félagsins skulu liggja frammi á aðalfundi. Kjör stjórnar fer fram á aðalfundi.

Dagskrá aðalfundar er:

 1. Setning.
 2. Skýrsla stjórnar.
 3. Reikningar lagðir fram til samþykktar. Gjaldkeri skal einnig gera lauslega grein fyrir fjárhagsstöðu samtakanna frá áramótum fram að aðalfundi.
 4. Lagabreytingar.
 5. Félagsgjald komandi almanaksárs ákveðið.
 6. Kosning stjórnar.
 7. Kosning skoðunarmanns og annars til vara.
 8. Önnur mál.

5. grein

Kjör stjórnar. Stjórn samtakanna skipa fimm menn: Formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari og einn meðstjórnandi. Kjörtímabilið er tvö ár. Þannig skal staðið að kosningu stjórnar:

Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára. Aðrir stjórnarmenn skulu einnig kjörnir til tveggja ára. Kjósa skal 2 stjórnarmenn árlega í stað þeirra 2, sem út ganga eftir 2 ára setu. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum á fyrsta fundi eftir þann aðalfund, er hún tekur við störfum á. Æskilegt er að a.m.k. einn stjórnarmanna hafi sjálfur TS. Segi einhver stjórnarmaður af sér, þá er stjórn heimilt að skipa annan í hans stað fram að næsta aðalfundi.

Stjórn samtakanna fer með æðsta vald milli aðalfunda. Stjórnin skal halda stjórnarfundi eins oft og þurfa þykir, þó ekki sjaldnar en einu sinni í mánuði. Undanskildir eru þó sumarleyfismánuðir. Stjórnarfundi skal boða með tryggilegum hætti og minnst þriggja daga fyrirvara sé þess kostur. Formaður samtakanna boðar til stjórnarfunda. Formaður stjórnar fundum, en varaformaður sé formaður ekki til staðar. Stjórnarfundur er ályktunarfær er þrír stjórnarmenn hið fæsta sækja fundinn. Stjórn skal halda fundargerðir yfir starf sitt.

6. grein

Endurskoðun. Á aðalfundi skal kosinn einn skoðunarmaður til eins árs í senn og annar til vara.Einnig skal félagið hafa löggiltan endurskoðanda.

7. grein

Fjármál.

 1. Reikningsár samtakanna skal vera almanaksárið.
 2. Kostnaður við starfsemi samtakanna skal greiddur með árgjöldum og/eða framlögum sem samtökunum kunna að áskotnast.
 3. Árgjald má innheimta í tvennu lagi, sé þess óskað.

8. grein

Réttindi og skyldur félagsmanna.

 1. Félagsmenn skulu fara að lögum Tourette-samtakanna á Íslandi.
 2. Félagsmanni er ekki heimilt að taka að sér launuð verkefni í nafni samtakanna nema með samþykki stjórnar.
 3. Hafi félagsmaður ekki greitt félagsgjald til samtakanna í tvö ár er hann tekinn út af félagaskrá.
 4. Óski félagsmaður eftir því að ganga úr samtökunum geri hann það skriflega.
 5. Félagsmanni ber að tilkynna um aðsetursskipti til skrifstofu samtakanna.
 6. Meirihluti stjórnar hefur rétt til þess að víkja félaga úr samtökunum enda séu gild rök fyrir brottvikningu að mati meirihluta. Skjóta má málinu til aðalfundar sé þess krafist.
 7. Hver félagsmaður sem skuldlaus er við samtökin hefur atkvæðisrétt á fundum samtakanna. Þetta ákvæði gildir þó ekki um styrktarfélaga.
 8. Félagsmanni er heimilt að fara fram á aðstoð stjórnar til að koma á fót einstökum hópum, sjálfum sér og félögum sínum til stuðnings.
 9. Félagsmanni er heimilt að leggja fram til stjórnar tillögur að verkefnum, sem eru í samræmi við tilgang samtakanna.
 10. Hver félagsmaður skal njóta alls þess sem samtökin geta veitt.

9. grein

Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi, enda skulu tillögur til lagabreytinga sendar út með aðalfundarboði. Tillögum til lagabreytinga skal skilað til stjórnar samtakanna eigi síðar en 3 vikum fyrir aðalfund

10. grein

Lagabreyting telst gild séu 2/3 hlutar fundarmanna samþykkir.

11. grein

Verði samtökunum slitið skal farið með tillögur í þá átt sem lagabreytingar. Til fundarins skal boðað bréflega með fimmtán daga fyrirvara. Fundur sá sem samþykkir að slíta samtökunum ákveður einnig hvernig ráðstafa skuli eignum þeirra og um greiðslur skulda séu þær einhverjar. Eignum samtakanna má þó aðeins ráðstafa í samræmi við tilgang þeirra.

12. grein

Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi samtakanna í Reykjavík 25. júní 2001 og komu þá í stað laganna frá 5. maí 1997 og síðan var breytt 5., 6. og 7. grein laganna á aðalfundi í júní 2007. Á aðalfundi í mars 2018 var 2. grein laganna tekin út og 9. grein laganna breytt.