Reiðistjórnun

Stjórnun á reiði – að hjálpa börnum sem hafa litla eða enga stjórnun á reiði sinni

eftir Hákon Sigursteinsson sálfræðing
© "Skills Training for Children with Behavior Disorders" – Guilford press

Tilgangur þessarar greinar er að hjálpa foreldrum að átta sig á ýmsu er varðar reiði barna og skort á reiðistjórnun. Það verður best gert í nokkrum þrepum.

1. þrep - Ákvarðaðu hvort barn sé tilbúið að læra hvernig á að bregðast við reiði

Barn getur annaðhvort verið of ungt (yngri en 8-10 ára) eða í of mikilli vörn til að geta skilið í hverju reiðistjórnun felst. Ástæðan gæti t.d. verið ákveðin spenna í fjölskyldu og viðfang þess vegna ekki til, þar sem barninu finnst að enginn sé til að bæta vandann nema það sjálft. 

2. þrep - Skilgreindu reiði

Margir þekkja ekki, eða gera sér ekki grein fyrir því , hvað það er að vera reiður. Foreldri ætti því að gera barni sínu grein fyrir hvað reiði er – nefnilega neikvæð tilfinning og vanlíðan vegna ákveðinna aðstæðna, raunverulegra eða skynjaðra, sem barninu líkar ekki. Foreldri ætti einnig að gera barni sínu grein fyrir því að reiði er eðlileg, allt frá lítilli reiði upp í mikla reiði. Gott er að biðja barnið um að lýsa aðstæðum þegar það hefur verið lítið/mikið reitt og vera viss um að barnið skilji að hægt er að vera misreiður eftir aðstæðum. 
3. þrep - Kenndu barninu að þekkja reiðimerki sín

Til að geta skilgreint hvort maður sé reiður verður maður að skilja "merkin" sem eru undanfari reiðinnar. Því er mikilvægt að foreldri fari í gegnum reiðimerkin með barninu.

Útskýrðu fyrst að allir verði reiðir, en málið snúist um hvernig maður sýni reiðina. Allar sterkar tilfinningar hafa þrjá hluta; líkams-, hugsunar- og hegðunarlegan. Foreldri fari því með barninu yfir þau hugsanlegu "merki" sem því dettur í hug. Algeng "merki" eru 

Líkamleg einkenni Hugsanamerki Hegðunarmerki
  • aukin öndun
  • aukinn hjartsláttur
  • aukinn sviti
  • andlit roðnar
  • spenntir vöðvar
  • heitur líkami
  • aukin hreyfing augna
  • ég hata sjálfan mig
  • ég hata hann/hana
  • ég meiði mig
  • ég lem hann/hana
  • ég brýt eitthvað
  • ég er heimskur
  • ég hata heimavinnu
  • ég geri ekkert rétt
  • ég gefst upp
  • kýla/lemja
  • hrópa
  • öskra
  • hóta
  • yfirlið
  • skjálfa
  • hlaupa
  • fara í burtu
Foreldri fari vel og ígrundað yfir öll þau merki sem þið finnið upp á, og helst að leika þau – sýna hvað hitt og þetta er, sbr. spenntir vöðvar. 
4. þrep - Kenndu barninu að slappa af

Þegar barnið hefur lært að þekkja merki reiðinnar og hvenær það upplifir reiði er hægt að kenna því að takast á við hana. Það mikilvægasta, eða fyrsta skrefið í því sambandi, er að læra að minnka spennu í líkamanum með slökun.Það má gera með ýmsum aðferðum, en hafa ber aldur barnsins í huga.

Hugsanlegar leiðir til slökunarkennslu:

  1. Djúp öndun: Kenndu barninu með beinum hætti og láttu það æfa sig. Grunnhugmyndin er að anda djúpt að sér og rólega frá sér
  2. Ímyndunaraflið: Aðferðin felst í því að barnið ímyndar sér ákveðna mynd eða atburð þar sem það finnur ró, til dæmis liggjandi á fleka niður lygna á þar sem það fer í gegnum alla tilfinninguna. Það fer upp og niður með mjúkum straumnum og rekst blíðlega á steinana o.s.frv. Einnig væri gott að tvinna saman æfingu 1 og 2 og biðja barnið að ímynda sér kerti fyrir framan sig og þegar það andar rólega frá sér má ekki slokkna á kertinu. Eldri börn geta búið sér til eigin "myndir".  
  3. Vélmenni/tuskudúkka: Þetta er mjög góð aðferð fyrir tíu ára og yngri. Eins og titillinn segir spennir barnið og slakar á vöðvum á víxl, spennir eins og vélmenni og slakar eins og tuskudúkka. Gott er að gera hvort fyrir sig í um 15 sekúndur. Þetta er gott að kenna barninu uns foreldri finnur að barnið hefur náð tökum á slökun. 
  4. Kerfisbundnar aðferðir: Þetta er hugsað fyrir eldri börnin og snýst um að nota tilbúið slökunarefni t.d. á segulbandsspólum, sem kenna barninu að fara í gegn um allan líkamann og slaka á stig af stigi.

Reynið eina eða tvær af þessum aðferðum með barninu, og verið viss um að barnið viti og kunni hvernig ber að slaka á, áður en farið er á næsta þrep. 

5. þrep - Kenndu barninu að nota sjálftal, tala við sjálft sig

Þessi aðferð felst í því að tala við sjálfan sig þar til maður róast. Fyrst þarf að útskýra fyrir barninu að þetta geti verið góð leið til að ná stjórn á reiðinni innra með manni. Síðan ber að útskýra að "með því að tala rólega við sjálfan sig (í hljóði) róast maður niður." Hægt er að segja eitthvað í líkingu við:

  • taktu það rólega…
  • það er allt í lagi þó að ég sé ekki góð/-ur í þessu...
  • Vertu alveg róleg/-ur...
  • farðu bara í burtu…
  • andaðu djúpt… …
  • þetta líður hjá…
  • ég er að spennast upp, slaka á…
  • mér finnst ekkert gaman, því hann/hún vill ekki leika við mig, en það er fullt af öðrum krökkum til að leika við…
  • ekki láta hann/hana pirra mig…
  • þetta verður allt í lagi…
  • ég reyni eins vel og ég get…
  • ekki gefast upp, róleg/-ur…

Þegar barnið hefur skilið tilganginn með sjálftali getur foreldri farið að æfa það. Það mætti setja upp hinar og þessar aðstæður; henda dúkku eða öskra til að byrja með, en fara síðan út í sjálftalið. Foreldri geri þetta fyrst sjálft (sýnikennsla), en biðji síðan barnið um að endurtaka það. 

6. þrep - Kenndu barninu að framkvæma áhrifaríka hegðun

Lokaatriðið í þessari kennslu barnsins er að kenna því að beita þessum brögðum í raunverulegum aðstæðum og að það sé mikilvægt að læra hvað geri mann reiðan því þannig geti maður lært að hafa stjórn á reiðinni. Ef maður veit hvað ákveðin merki geta haft í för með sér getur maður frekar hegðað sér á áhrifaríkan hátt. Áhrifarík hegðun er til dæmis að:

  • tjá tilfinningar sínar,
  • óska eftir að tekið sé utan um mann,
  • fara út að ganga,
  • slaka á,
  • vera viss í sinni sök og gefa eftir,

Foreldri fari í gegnum þetta með barninu, hvað sé viðeigandi og hvað ekki undir hverjum kringumstæðum.  

7. þrep - Foreldri tileinki sér hið og sama og barnið

Mikilvægt er að foreldri tileinki sér einnig reiðistjórnun og sé í alla staði gott fordæmi. Foreldri þarf því að reyna að læra og tileinka sér öll þrepin um leið og farið er yfir þau með barninu. 

8. þrep - Gerðu aðgerðirnar sýnilegar barninu með vinnublaði

Mikilvægt er að koma hlutunum niður á blað þannig að aðgerðirnar verði sýnilegar barninu á fleiri en einn hátt. Fyrst þarf barnið að skrifa niður öll þau merki sem hafa valdið reiði. Síðan á barnið að skrifa niður líkamleg merki, hugsunamerki og hegðunarmerki sem fylgdu. Í þriðja, fjórða og fimmta lagi á það að lýsa því hvernig það náði tökum á reiðinni í einhverju ákveðnu tilfelli. Að lokum á barnið að meta hvernig það stóð sig á fjögurra punkta skala  

9. þrep - Endurtaktu öll þrepin þegar við á

Athugið
Það má nota þetta kerfi til að skoða og skilgreina fleiri tilfinningar en reiði. 

Viðbrögð við reiði – vinnublað

Dagsetning: ____________

Leiðbeiningar: Barn og/eða foreldri geta lokið við þetta vinnublað. Best er að fylla það út á meðan maður er enn reiður, en einnig er í lagi að gera það eftir að reiðin er runnin af manni.

  1. Hvaða atburður eða vandamál gerði mig reiða/-n?

  2. Hver eru merkin sem segja mér að ég sé reið/-ur? 

      a. Líkamleg merki 

      b. Hugsanamerki

      c. Hegðunarmerki 

  3. Hvað get ég gert til þess að slaka á?

  4. Hvernig sjálftal get ég notað til að stjórna hugsunum mínum?

  5. Hvernig áhrifaríka hegðun get ég notað til að ráða betur við aðstæðurnar eða leysa vandamálið? 

Viðbrögð mín/hegðun mín (dragðu hring um eina staðhæfingu)

  1. Ég gerði ekkert til að bregðast við reiðinni.

  2. Ég reyndi pínulítið að bregðast við reiðinni, en gekk ekki alveg.

  3. Ég reyndi mikið að bregðast við reiðinni, en gekk ekki alveg.

  4. Ég reyndi mikið að bregðast við reiðinni, og það

    1. virkaði  

 

Viðbrögð við reiði – vinnublað

Dagsetning: 28.04.98

Leiðbeiningar: Barn og/eða foreldri geta lokið við þetta vinnublað. Best er að fylla það út á meðan maður er enn reiður, en einnig er í lagi að gera það eftir að reiðin er runnin af manni.

  1. Hvaða atburður eða vandamál gerði mig reiða/-n?

    Þegar önnur börn eru að taka frá mér leikföngin mín. 

  2. Hver eru merkin sem segja mér að ég sé reið/-ur? 

       a. Líkamleg merki

    Ég svitna, hjartað bankar meira og ég hreyfi augun meira 

       b. Hugsanamerki

    Hvað er hann að taka mitt dót. Þetta má hann ekki. 

       c. Hegðunarmerki

    Tek af honum dótið og ýti honum í burtu. 

  3. Hvað get ég gert til þess að slaka á?

    Andað djúpt að mér og rólega frá mér. 

  4. Hvernig sjálftal get ég notað til að stjórna hugsunum mínum?

    Taktu það rólega hann má alveg leika sér af dótinu mínu. 

  5. Hvernig áhrifaríka hegðun get ég notað til að ráða betur við aðstæðurnar eða leysa vandamálið?

    Slaka á og vera viss í minni sök, gefa eftir.

Viðbragð mitt/hegðun (dragðu hring um eina staðhæfingu).

  1. Ég gerði ekkert til að bregðast við reiðinni. 

  2. Ég reyndi pínulítið að bregðast við reiðinni, en gekk ekki alveg. 

  3. Ég reyndi mikið að bregðast við reiðinni, en gekk ekki alveg. 

  4. Ég reyndi mikið að bregðast við reiðinni, og það virkaði.