Ráð handa kvíðnum krökkum

Höfundur: Fimm sérfræðingar

Panta bók

Ráð handa kvíðnum krökkum – Fyrir fjölskyldur barna og unglinga sem glíma við kvíða.  

Bókin er einfaldur og skýr leiðarvísir um hvernig hjálpa má börnum og ungmennum að takast á við kvíða með rökhugsun og breyttri hegðun. Gefin eru gagnleg ráð til að glíma við vandann, með eða án sérfræðihjálpar.

Kvíði er algengur meðal barna og unglinga en allt að ein af hverjum fimm manneskjum glímir við hamlandi kvíða einhvern tíma á lífsleiðinni. Mjög mikilvægt er að gagnlegt fræðsluefni um kvíða sé aðgengilegt fjölskyldum, ekki síst í ljósi þess að margir eiga ekki greiðan aðgang að geðheilbrigðisþjónustu og þurfa jafnvel að sækja slíka þjónustu um langan veg. 

Flest börn hafa einhvern tíma verið myrkfælin, mörg börn óttast að skrímsli leynist undir rúminu þeirra – en sum börn, eða um tíunda hvert barn, eru haldin meiri kvíða en almennt gildir, sem getur haldið aftur af þeim og valdið því að þau njóti ekki bernsku sinnar sem skyldi. 

Í bókinni eru gefnar ýmsar hagnýtar og gagnreyndar leiðir til kvíðastjórnar. Foreldrar og aðrir sem koma að uppeldi barna læra hér hvernig má hjálpa börnum við að ná tökum á áhyggjum og ótta og stuðla þannig að bættri líðan þeirra.

Bókin, sem hlaut viðurkenningu félags um hugræna atferlismeðferð í Bandaríkjunum, ACBT, í flokki sjálfshjálparbóka, fjallar meðal annars um:

  • Hvernig kenna má börnum að „hugsa eins og spæjarar“ svo að þau geti borið kennsl á óraunhæfar áhyggjur
  • Hvernig best er að bregðast við þegar börn verða hrædd
  • Hvernig fá má börn smátt og smátt og varfærnislega til að takast á við kvíðavalda sína
  • Hvernig hjálpa má börnum við að tileinka sér mikilvæga félagsfærni.

Höfundar bókarinnar eru fimm sérfræðingar sem hafa haft börn ásamt foreldrum í kvíðameðferð. Efnið byggir á aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar, HAM, og á hópmeðferð sem á Íslandi er nefnd Klókir krakkar (e. Cool Kids). Meðferð þessi hefur verið veitt hér á landi með góðum árangri og var fyrst innleidd á barna- og unglingageðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss, LSH/BUGL. 

Bókin var gefin út af Tourette-samtökunum á Íslandi í september 2016 ásamt tilheyrandi krakkavinnubók þar sem efnið er gert aðgengilegt fyrir börn.

Bækurnar eru seldar hjá Tourette-samtökunum, og kostar sjálf bókin 3.000.- kr. og krakkavinnubókin 1.000.- krónur. Hægt er að panta bókina með því að smella á hnappinn "PANTA BÓK" hér fyrir ofan.