Wolfgang Amadeus Mozart

Var Mozart með Tourette?

Mozart hegðaði sér illa segir breska tónskáldið James McConnel í breska dagblaðinu The Guardian 1. september 2004 og telur tónskáldið fræga hafa haft Tourette heilkenni (TS/TS+). 

Mozart, hið austurríska undrabarn í tónlist, lést aðeins 35 ára að aldri árið 1791, og hafði þá skilið eftir sig fjölda frábærra tónverka. Fyrsta tónverkið samdi hann er hann var aðeins 4 ára og fyrstu sinfóníuna er hann var 8 ára gamall.  

What Made Mozart Tic?, bresk heimildamynd fyrir sjónvarp,framleidd af Marion Milne á 3BM Television og sýnd á Channel 4 í október 2004, fjallar um að Wolfgang Amadeus Mozart hafi haft Tourette heilkenni auk áráttu- og þráhyggjuröskunar og að það hafi haft áhrif á tónlistarsköpun hans.  Þetta staðhæfir breska tónskáldið James McConnel, sem sjálfur hefur Tourette heilkenni.  Um mynd þessa segir á heimasíðu 3BM að hún sé heillandi umfjöllun James McConnel um líf og tónlist Mozarts.  

McConnel, sem býr í Norfolk og semur m.a. tónlist fyrir heimildamyndir, bíómyndir og sviðsverk, segir sjálfur heimildamyndina vera jákvæða umfjöllun um Mozart og Tourette.  Myndin fjallar líka um Mozart og Tourette heilkennið út frá læknisfræðilegu sjónarmiði og rætt er við læknana og prófessorana Mary Robertsson og Hugh Ricards og einnig Julian Anderson prófessor í tónlistarsköpun.

McConnel segist ekki fyrstur til að nefna að Mozart hafi líkast til haft Tourette heilkenni (e. Tourette syndrome, TS/TS+).  Hann segir skandinavískan vísindamann fyrstan hafa komið fram með tilgátuna og sá hafi grundvallað það á dónalegum tón í bréfum Mozarts. McConnel telur sig hafa betra sjónarhorn á tilgátu þessa en gerist og gengur, þar sem hann er sjálfur tónskáld með Tourette.  Hann segist hafa byrjað á því að yfirfara eldra efni varðandi tilgátu þessa og síðan greint tónlist Mozarts út frá sjónarhóli einstaklings með Tourette.  

McConnel segir misskilning varðandi Tourette algengan og að heilkennið snúist alls ekki bara um hömlulaus blótsyrði eða soratal, þar sem slíkt sé einungis að finna hjá um 20% þeirra sem hafa TS.  Hann segir Tourette vera klasaheilkenni, sem samanstendur af nokkrum mismunandi einkennum og enga tvo einstaklinga með Tourette vera eins varðandi heilkennið. TS einkennist af kækjum og hljóðkækjum og oft fylgir því áráttu- og þráhyggjuröskun (e. OCD) og ofvirkni með eða án athyglibrests (e. AD/HD).  Margt fólk með TS getur haft tímabundna stjórn á einkennum sínum en þarf síðan að veita þeim útrás, svipað og gildir með kláða sem verður að bregðast við með því að klóra sér.  

Mozart hafði ýmsar áráttur, ýmislegt á heilanum eins og sagt er, svo sem klukkur og mælitæki, ketti, skóstærðir og öryggi eiginkonu sinnar en hann taldi mjög hættulegt að hún færi mikið út úr húsi.  Hann mun hafa haft kæki, rykki og kippi, grettur, stappað mikið niður fótum og sýnt ýmsa skringilega hegðun.  Eins og Peter Shaffer hnykkti á í myndinni Amadeus, þá elskaði Mozart tilbreytingu og var jafnan hrókur alls fagnaðar; hann var haldinn áráttu með að ríma, leika sér að orðum og bulla (hljóðkækir); hann grínaðist mikið og gekk gjarnan of langt í því.

Bréf Mozarts einkenndust af soralegu orðbragði og þó að á átjándu öld þætti ljótt orðbragð ekki mikið tiltökumál má segja að Mozart hafið slegið öll met samtímamanna sinna í þessum efnum.  Hann skrifaði ekki einungis óviðurkvæmileg bréf heldur samdi líka oft afar grófa eða klúra texta við hina fegurstu tónlist og er það til marks um togstreituna milli glundroða og reglu í listsköpun hans.  Einstaka lögum sínum gaf hann hneykslanleg nöfn eins og til dæmis Kýldur sem uxi og Sleikið á m... r....gatið, sem sýnir hvernig kímnigáfan hljóp með hann í gönur en slíkt gerist stundum með fólk með Tourette. 

McConnel telur sterkustu vísbendingarnar um Tourette Mozarts að finna í tónlist hans og segir hana vera blöndu af óreiðu og reglu og að Tourette sé einmitt stöðug togstreita milli þessara tveggja þátta, að hafa mjög sterka tilhneigingu til að framkvæma eitthvað tiltekið og jafnframt halda aftur af því.  Hann segir Mozart hafa áráttukennt reynt að stjórna þessu og þá innri togstreitu birtast í tónlistarsköpuninni.   

Í æsku Mozarts voru kontrapunktur og fúga í tónlist á undanhaldi og hinar stóru hirðir Evrópu vildu á þeim tíma fá fislétta og hljómfagra danstónlist.  En Mozart hafnaði þessum lítt flóknu og reglubundnu formum tónlistar sem hann ólst upp við og horfði lengra aftur, til fúga Bachs og Handels.  Hann varð ofurupptekinn af fúgu, sem er mjög flókin, og notaði hana mjög í tónlist sinni.  Fúgur virðast óreiðukenndar en eru í raun með reglubundnum og fallegum strúktúr.  Segja má að Mozart hafi enduruppgötvað fúgu og kontrapunkt. Hann gaf tónlist sinni lausan tauminn af og til en sveigði síðan aftur að reglu þess á milli. Mozart elskaði að skrifa tónlistarkafla sem brutu allar reglur, en felldi þá þó saman í eitt nákvæmt heildarskipulag.  Hinir 6 kvartettar Mozarts sem kenndir eru við Haydn voru vinum hans ráðgáta vegna flókins kontrapunkts. 

McConnel segist ekki geta sannað að Mozart hafi haft Tourette heilkennið, en segir það geta útskýrt að stórum hluta hvernig meistarinn skapaði tónlist sína og hvaða stefnu hún tók.  Hann segir Mozart hafa verið snilling og með Tourette; að heilkennið hafi ekki valdið snilligáfunni heldur sett tiltekinn svip á tónlist hans, stjórnað nokkuð eðli listsköpunar hans.  „Hann var snillingur og hann hafði Tourette heilkenni, og þó það kunni að hafa haft sín áhrif á hvernig snilligáfan birtist öðrum og hvernig hann sigldi móti straumnum, þá hefði Mozart orðið tónlistarsnillingur án heilkennisins,“ segir McConnel í lokin.

Sigrún Gunnarsdóttir þýddi og endursagði í sept. 2004

Heimildir á vefnum: