Hvað er Tourette?

Tourettesjúkdómur (TS, e. Tourette syndrome) er taugasjúkdómur, sem stafar af ójafnvægi á boðefnaflæði í heila. Helstu einkenni eru svonefndir kækir, sem eru tilgangslausar en óviðráðanlegar endurteknar hreyfingar eða hljóð. Einnig fylgja TS oft áráttu- og þráhyggjueinkenni (OCD) og einkenni athyglisbrests og ofvirkni (ADHD). Tíðni TS er um 0,6%. Tourette er arfgengur sjúkdómur sem ekki er hægt að lækna, en oftast er hægt að halda einkennum í skefjum með lyfjum, þótt þess gerist ekki alltaf þörf. TS er í flokki kækjaraskana, hinar tvær eru krónísk kækjaröskun og tímabundin kækjaröskun. Greint er á milli þessara þriggja kækjaraskana eftir gerðum kækja (hreyfikækir eða radd-,tal-,söng-/hljóðkækir, eða hvort tveggja) og þeirri tímalengd sem kækir hafa sýnt sig.