Aðalfundur og fræðslufyrirlestur

Aðalfundur Tourette samtakanna var haldinn 27. mars síðastliðinn. Kosið var um formann og tvö sæti í stjórn. Arnþrúður Harpa Karlsdóttir var kosin formaður til tveggja ára og Auðbjörg Sigurðardóttir og Sindri Viborg voru kosin í stjórn til tveggja ára. Auðbjörg og Sindri eru bæði ný í stjórn Tourette-samtakanna og bjóðum við þau velkomin til starfa.

Þær Sigrún Gunnarsdóttir og Erla Sólrún Valtýsdóttir hættu í stjórn Tourette-samtakanna. Í 27 ára starfsemi Tourette-samtakanna hefur Sigrún setið í stjórn samtakanna í 16 ár og þar af gegnt formennsku í 13 ár. Á þessum árum hefur Sigrún setið æði marga fundi, fyrirlestra og ráðstefnur fyrir hönd samtakanna, bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur starfað ötullega að þýðingu og útgáfu á fræðsluefni og bókum um Tourette ásamt því að koma að útgáfu afmælisrita, fréttabréfa og ritstýra vefsíðunni. Erla Sólrún hefur einnig setið í stjórn í 16 ár og hefur allan þann tíma verið gjaldkera samtakanna. Að auki þá hefur hún hefur séð um símasvörun, tölvupóst, reikningshald, póstsendingar, undirbúning funda og ýmislegt fleira í skrifstofurekstri samtakanna ásamt afgreiðslu bókapantana í fjölda ára. Um leið og við þökkum Sigrúnu og Erlu Sólrúnu óeigingjarnt starf fyrir Tourette-samtökin óskum við þeim velfarnaðar í þeim verkefnum sem þær taka sér fyrir hendur í framtíðinni.

Strax á eftir aðalfundi var Bertrand Lauth með fræðsluerindi um rannsóknir á áhrifum mataræðis á hegðan og líðan barna. Tengslum mataræðis og geðraskana hefur lengi verið haldið fram en á undanförnum árum hefur rannsóknum á mataræði, bæði sem mögulegri forvörn og sem meðferðarúrræði, fleygt fram. Ekki síst með betri skilningi á hlutverki örveruflóru meltingarvegar, hvernig mataræði getur mögulega mótað samsetningu hennar og virkni ásamt öðrum lífstílsþáttum og erfðum, sem gera okkur öll einstök. Í erindinu kom m.a. fram að afar fáar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum mataræðis á Tourette. Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á áhrifum mataræðis á hegðan og líðan barna benda til þess að mataræði geti haft áhrif en að gera þurfi frekari rannsóknir með stærra úrtaki og viðmiðunarhópi. Einnig kom fram að sumir með Tourette eru viðkvæmir fyrir áferð, bragði og lykt af mat sem getur haft áhrif á fæðuval þeirra og orðið til þess að fæðusamsetningin verður einhæf. Bertrand er lektor við læknadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur í barna- og unglingageðlækningum á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans.