Egill sem er 13 ára hljóp til styrktar Tourette-samtökunum

Frá Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka. Mynd/rmi.is
Frá Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka. Mynd/rmi.is

Egill Róbertsson hljóp til styrktar Tourette-samtökunum í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka sem fram fór sama dag og menningarnótt, þann 20. ágúst.

Egill er 13 ára og hljóp með pabba sínum, Róberti Ragnarssyni.

Af hverju hljópstu fyrir Tourette-samtökin?

„Ég var greindur með vægt Tourette þegar ég var sex ára. Þegar pabbi sagði að ég gæti styrkt eitthvað í Reykjavíkurmaraþoninu þá datt mér í hug að styrkja Tourette-samtökin.“

Alls safnaði Egill styrkjum upp á 32 þúsund krónur sem er virkilega flottur árangur og á eftir að nýtast vel í starfi samtakanna.

Þetta var í fyrsta sinn sem Egill hljóp í Reykjavíkurmaraþoninu.  Þeir feðgar hlupu 10 kílómetra og hafði Egill aldrei hlaupið svo langa vegalengd áður, en feðgarnir fara stundum saman út að hlaupa.

Hvernig gekk hlaupið?

„Það tekk vel. Ég ætlaði að klára undir klukkustund en ég kláraði níu sekúntubrotum yfir klukkutímanum,“ segir Egill.

Hann segir að það hafi aldrei verið nein sérstök fræðsla um Tourette í skólanum sínum en það er einmitt nokkuð sem Tourette-samtökin bjóða upp á. Nú geta foreldrar/forráðamenn barna og ungmenna með Tourette, eða starfsfólk skólanna, haft samband og fengið fulltrúa samtakanna til að vera með fræðslu fyrir skólafélagana, og líka fyrir kennarana og annað starfsfólk. Þessi þjónusta er gjaldfrjáls og er hluti af sérstöku fræðsluátaki Tourette-samtakanna sem er að hefjast.

Er eitthvað sem þú vilt að sem flestir viti um Tourette?

„Að fólk getur ekki stjórnað því hvernig kækirnir eru eða hvenær fólk gerir þá,“ segir Egill.

Tourette-samtökin færa Agli og fjölskyldu hans bestu þakkir fyrir stuðninginn.