Sindri formaður ræðir eineltisforvarnir á Bylgjunni

Skjáskot/Bylgjan/Visir.is
Skjáskot/Bylgjan/Visir.is

Sindri Viborg, formaður Tourette-samtakanna á Íslandi, segir að breyta þurfi því hvernig tekið er á eineltismálum hér á landi. Hann segir að illa gangi að leysa einelti innan skóla þar sem óljóst er hver ber ábyrgð á því að taka á málunum.

Þetta kom fram í máli Sindra en hann var gestur í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Rætt var við Sindra í samhengi við fréttir um hrottalegt einelti sem 12 ára stúlka í Hafnarfirði hefur verið beitt að undanförnu. Móðir stúlkunnar steig fram í dag og ræddi um eineltið sem dóttir hennar hefur orðið fyrir.

Í upphafi þáttarins ræddi Sindri um eineltið sem hann varð sjálfur fyrir sem barn en í dag er hann að mennta sig sem kennari með séráherslu á eineltisforvarnir. Þá sagði hann frá því að hann fer semð formaður Tourette-samtakanna inn í skóla með fræðslu þar sem fjallað er um einelti.

Hann sagði í viðtalinu að Íslandi væri með flottar löggjafir þegar kemur að eineltisforvörnum sem meira að segja eru stjórnarskrárvarðar, en vandinn sé hins vegar hvernig goggunarröð ábyrgðar tengd þessum stjórnarskrárvörðu atriðum er framkvæmd og fylgt eftir.

„Fyrir mér er þessi keðja orðin of löng, þegar komið er niður að skólunum þá er þetta orðið svo útþynnt. Þannig ég eiginlega veit ekki hvar er hægt að segja: „Hey, þið eruð ekki að standa ykkur nógu vel“ eða „Þið eruð standa ykkur nógu vel“.“ Staðan núna sé þannig að hver bendi á annan og það tefji fyrir lagfæringu á eitraðri menningu sem fái að grassera á meðan.

Fjallað var um viðtalið við Sindra á DV.is og má lesa umfjöllunina hér.