Stefán Karl - Minning

Stefán Karl - Í Tourette og moll
Stefán Karl - Í Tourette og moll

Í febrúar 2014 kom Stefán Karl á fjölskyldudag hjá Tourette-samtökunum og tók létt spjall með krökkunum um líf sitt með Tourette. Hann náði einstaklega vel til barnanna og lýsti meðal annars hvernig Tourette hjálpaði honum í leiklistinni og við að skapa sína þekktustu karaktera þ.e. Glanna glæp og Tröllið sem stal jólunum. Við fengum meira að segja nokkur sýnishorn af ógurlega Tröllaöskrinu hans sem hljómaði langt frá því að vera úr mannlegum barka. Í þessu einlæga spjalli við börnin sagði Stefán Karl á opinn og hispurslausan hátt frá sínum kækjum og spurði börnin um þeirra kæki. Hann náði á alveg sérlega vel til barnanna og þarna skapaðist einstök stemming þar sem börnin fengu að upplifa jákvæðar hliðar á Tourette. Eftir spjallið bauð hann börnunum að mæta í sérstaka Parkour tíma hjá Gerplu, sem ætlaðir voru börnum sem áttu erfitt uppdráttar m.a. vegna eineltis eða greininga. Parkourtímarnir voru börnunum að kostnaðarlausu og voru í tenglsum við Regnbogabörn, félagssamtök sem Stefán Karl stofnaði gegn einelti.

Árið 2009 gaf Stefán Karl út geisladisk sem ber nafnið "Í Tourette og moll" en diskinn vann hann með Gísla Rúnari Jónssyni leikara. Fyrsta lag geisladisksins tileinkuðu þeir Tourette sjúkdómnum og með því móti vildu við vekja athygli á Tourette-samtökunum og gefa þau fallegu skilaboð út að þó þú sért með Tourette eða ADHD eða hvað eina, þá getur þú alveg náð langt í lífinu.

Við fráfall Stefáns Karls missti heimurinn hæfileikaríkan og einstakan listamann og lífskúnster og að auki ötulan og jákvæðan talsmann Tourette heilkennisins. Blessuð sé minning Stefáns Karls  Tourette-samtökin á Íslandi senda eftirlifandi eiginkonu Stefáns Karls, Steinunni Ólínu, börnum þeirra og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur, minningin lifir um ókomin ár."