Tourette-samtökin veittu Magnúsi Orra Arnarsyni styrk í dag til áframhaldandi góðra verka í kvikmyndagerð. Hann hefur vakið athygli á undanförnum árum fyrir störf sín, veitt mörgum innblástur, og hefur sýnt að fatlað fólk getur látið drauma sína rætast. Magnús Orri byrjaði að læra kvikmyndagerð í framhaldsskóla en boltinn fór að rúlla af alvöru þegar hann var fenginn til að gera kynningarmyndband fyrir Íþróttasamband fatlaðra.
Fyrr á þessu ári var frumsýnd heimildamyndin Sigur fyrir sjálfsmyndina eftir Magnús Orra þar sem hann fylgdi eftir íslenskum keppendum á Heimsleika Special Olympics sem fram fóru á Ítalíu í vor, en í myndinni veitti hann innsýn í keppnina sjálfa og þá mannúð og virðingu sem einkennir starf Special Olympics. Þetta var fyrsta heimildamynd Magnúsar Orra sem keppti sjálfur á leikunum í Abu Dhabi árið 2019.
Tourette-samtökin, í samstarfi við Bíó Paradís, stóðu fyrir sérstakri skynsegin sýningu á myndinni Sigur fyrir sjálfsmyndina í október og sat Magnús Orri fyrir svörum eftir sýninguna, en hann er greindur með Tourette og einhverfu. Myndin var síðan sýnd á RUV í gærkvöldi, 29. desember. Magnús Orri hlaut Hvatningarverðlaun ÖBÍ 2025 sem forseti Íslands veitti honum við hátíðlega athöfn 3. desember, á alþjóðadegi fatlaðs fólks.
Magnús Orri hefur sýnt með verkum sínum og viðhorfum að hann er mikil fyrirmynd. Hann er þegar með fleiri kvikmyndaverkefni í bígerð og hvetja Tourette-samtökin hann til dáða með styrk að upphæð 250 þúsund krónur.